top of page

Reiðskólinn

Hér getur þú lesið um hvernig þú ferð á og af baki og hvernig þú átt að sitja á baki. Það er kallað áseta, hvernig þú hefur samskipti við hestinn í gegnum ábendingar og líkamstjáningu.  Einnig fræðist þú um af  hverju hestar haga sér eins og þeir gera og af hverju það er mikilvægt að haga sér á ákveðin hátt í kringum hesta og margt fleira fyrir þá sem langar að læra meira um hesta og reiðmennsku.

Að fara á hestbak 

Stattu við hlið hestsins og horfðu fram og vertu í taumsambandi.  Hesturinn á að standa kyrr og bíða rólegur þegar þú ert að fara á bak.

Ef þú ert eins og á myndinni, á vinstri hlið hestsins, heldur þú með hægri hönd í hnakkinn og vinstri hönd í faxið og setur vinstri fót í ístaðið.

Næst spyrnir þú þér upp með fætinum og setur þyngdina í ístaðið og færir varlega hægri fót yfir hestinn án þess að rekast í hann.

Settu fótinn í ístaðið hægra megin áður en þú sest mjúklega niður í hnakknum. Farðu yfir ásetu og taumhald og þú ert klár að fara afstað.

Grunnkunnátta

Áseta

Rétt áseta

 

Til að knapinn geti verið í réttri ásetu þarf hann að vera slakur, en samt með hæfilega vöðvaspennu til að halda líkamanum í réttri stöðu.  Knapinn þarf að vera í góðu jafnvægi.  Þú þarft að geta fylgt hestinn án þess að trufla jafnvægi og hreyfingar hans og hafa stjórn á eigin líkama.  Mikilvægt er að knapinn sitji beint yfir hestinum, með jafna þyngd á báðum setbeinum og horfir fram.  Gott að æfa þetta í t.d ásetuæfingum þar sem knapinn þarf einungis að hugsa um sjálfum sig og getur látið einhver annan stjórna hestinum á meðan.

Á myndinni sjáið þið knapa sitja í lóðréttri ásetu og græna línan er lóðrétt í gegnum eyra - öxl - mjöðm - hæl.  Einnig fer bein lína í gegnum olnboga knapans, hönd hans og fram í munn hestsins.  Þannig verður hönd knapans næm og mjúk og getur gefið réttar ábendingar með taumnum. 

Rétt áseta er mikilvæg til að geta fylgt hestinn vel efir og látið honum líða vel með okkur á baki, við eigum að trufla hann sem minnst og gefa nákvæmar og næmar ábendingar. 

 

 

Hér sérð þú knapa í réttri lóðréttri ásetu.

Röng áseta

 

Hér eru nokkur dæmi um ranga ásetu, t.d að vera hokin og hafa hendur við maga, halla sér fram og draga hæla upp eða fetta bakið eins og á myndin lengst til hægri.  Í þessum stöðum er knapinn ekki í jafnvægi og getur ekki fylgd hreyfingum hestsins jafnvel og í réttri ásetu.

Lóðrétt áseta

...er sú áseta sem við notum mest.  Sjá mynd fyrir ofan þar sem lóðlínan er sýnd.  Í þessari ásetu er hægt að hafa sem mest áhrif á hestinn, eins og jafnvægi hans, hreyfingar og gæði gangtegundar sem hann er á.  Lóðrétta ásetu er hægt að nota á öllum gangtegundum og bæði þegar riðið er hægt og greitt.  Til að kanna hvort lengdin á ístaðsólinni sé rétt stillt, er hægt að fara úr ístaðinu og athuga hvort það sé ekki í hæð við ökklann. Þá er ístaðið í réttri hæð. 

HálfLétt áseta

Í hálfléttri ásetu þarf knapinn að sitja létt í hnakknum, hann hallar efri hluta likamanns aðeins fram, beygir sig í mjöðmum  og setur meiri þyngd í ístöðin, hné og innanverð læri.  Reiðbuxur snerta hnakkinn en ekki rassinn. Þessi áseta er oft notuð til að aðstoða hestinn að finna jafnvægi, t.d. á brokki ef hann á erfitt með að finna taktinn eða halda sér á gangtegundinni.  Einnig er ásetan notuð á  ungum hrossum til að létta á bakið, hvíla þau eða aðstoða þau með jafnvægið.

Létt áseta

Í léttri ásetu þarf að stytta um nokkur göt í ístaðsólunum, knapinn lyftir sér vel upp úr hnakknum, beygir vel mjaðmir og hallar efri hluta likamans fram.  Þyngd knapans er aðallega í hnjánum og ístöðum. Þessi áseta reynir töluvert á lærvöðva knapans ásamt jafnvægi hans.  Rassinn er vel fyrir ofan hnakk  Mikilvægt er að beygja vel hnén og fjaðra með hreyfingum hestsins.  Hendur þarf að færast framar á makka hestsins og knapinn horfir fram.  Þessi áseta er oft notuð í hindrunarstökki, við stökkþjálfun eða við þolþjálfun.  Hesturinn hvílist og fær frelsi til að hreyfa bakið.

Stígandi áseta

Þessi áseta er einungis notuð á brokki.  Brokk er tvítakta gangtegund með sex hreyfistigum.  Sem þýðir að hesturinn stígur í skástæðu fram- og afturfót samtímis  t.d. vinstri framfót og hægri afturfót (spyrnir sér upp á skástæðu, vinstri fót og hægri fót, snertir síðan ekki jörðina með neinum fót áður en hann lendir á hinni skástæðunni, hægri framfót og vinstri afturfót.) Hesturinn lendir á hægri framfót og vinstri afturfót og svífur aftur yfir á vinstri framfót og hægri afturfót.  Þú heyrir einn - tveir - einn - tveir í takt með hreyfingum hestins.  Þegar þú ert að nota stígandi ásetu ferð þú upp úr hnakknum með mjaðmir og rass á þegar þú telur 1 og sest aftur mjúklega þegar þú telur tveir. Telur síðan hægt  1-2-1-2-1-2 í takt við brokkið, alveg eins og þú værir að standa upp úr stól og setjast aftur.  Ef þú telur hratt þá er best að telja, 1,2,og fara upp úr hnakknum og 3,4 og setjast mjúklega í sætið.

Stigandi áseta er mjög góð til að hafa áhrif á takt og hreyfingar á brokki ásamt því að láta hestinn spyrna afturfótum.  Þegar knapinn er komin með færni í að stíga rétt þarf að læra að fylgja réttri skástæðu á brokki.  Þá fer knapinn upp úr hnakknum þegar ytri framfótur fer upp og sest niður þegar fóturinn stígur í jörðina aftur.  Að stíga brokk vel og markvisst hjálpar til við að bæta misstyrk og þarf að gæta þess að stíga jafnt í báða skástæðu.

Halda í Tauminn

Taumurinn er festur í mélið sem er í munni hestsins, sem er mjög næmur.  Þú heldur mjúklega (gætilega) um tauminn, alveg eins og þú sért með lifandi fugl í hendinni og hann má ekki fljúga frá þér, en þú verður einnig að gæta þess að klemma hann ekki of fast í lófunum.  Taumurinn á að fara inn á milli litlaputta og baugfingurs og  koma síðan upp úr hendinni við vísifingur og þumalputta, sem lokar mjúklega taumnum.  Þumalputtinn snýr upp alveg eins og á myndinni. Báðar hendur eru eins, handabakið upp á rönd og snýr út og þumalputtinn efst.  Hendurnar eiga að vera ca 10 cm fyrir ofan herðakamb hestsins og c.a. handabil á milli þeirra. 

 

Taumábendingar er gefnar með því að loka höndinni betur um tauminn.  Eins og þegar vatn er kreist úr svampi.  Ef hesturinn svarar ekki gæti þurft að draga höndina aðeins í átt að maganum með þvi að nota úlnliðinn. Ávallt á að byrja á litlum ábendingum og styrkja þær svo, þangað til hesturinn svarar.  Það er góð regla að bjóða fyrst hestinum sínum litla og gætilega ábendingu, sem er  "draumaábendinginn" og reikna með því að hesturinn svari.  Með því ertu að treysta hestinum og gefa honum tækifæri að bregðast rétt við!  Ef hann bregst ekki við, þá þarf að vera ákveðnari.

Taumurinn getur gefið ábendingar um að stoppa, beygja og bakka og oft er marga ábendingar notaðar til að aðstoða hverja aðra. Eins og t.d. hljóðmerkið:  "hóó"  sem er notað ásamt  taumábendingu þegar þú ætlar að stoppa.

Taumsamband

 

 

 

Knapinn heldur góðu og mjúku taumsambandi við hestinn, sem bíður eftir nýjum ábendingum og vinnur með knapanum. Hesturinn er við taum.

 

 

 

 

 

 

Þessi knapi ríður hestinum við slakan taum.  Það er greinilegur slaki á taumnum og hesturinn getur lengt sig fram og niður og hefur hálsinn alveg frjálsan. Þetta er oft gert eftir erfiðar æfingar eða þegar æfingatímanum er að ljúka til að bjóða hestinum að slaka á.  Hestur sem er spenntur mun ekki þiggja að lengja sig og slaka á þegar taumurinn verður slakur heldur mun hann auka hraðann . 

 

 

 

 

 

 

Hér sérðu hest sem er riðið við langan taum. Taumurinn er laus en samt hefur knapinn enn samband við hestinn í gegnum tauminn. Hesturinn hefur aðeins meira pláss en knapinn getur samt gefið hestinum skilaboð með taumnum. Hesturinn er í taumsambandi en er frjálsari en við taum.

Hvatning með fæti

Til þess að fá hestinn til að fara áfram er gefin ábending með báðum fótum samtímis.  Knapinn þrýstir mjúklega með kálfum að síðum hestsins, en um leið og hesturinn fer af stað, þá verður þú að taka þrýstinginn af með því að slaka á í fótunum.  Það er gert til að umbuna hestinum og fá hann til að skilja að hann var að gera rétt og þá langar hestinum að gera það sem við biðjum hann um, aftur og aftur. 

 

Hvatning með fótunum er notuð til að fá hestinn til að fara hraðar, skipta um gangtegund eða færa sig til hliðar. 

Aðra ábendingar sem knapinn notar eru hljóðmerki, sem sagt röddin, sem getur verið bæði róandi og hvetjandi eftir þvi hvernig knapinn notar röddina. 

 

Þyngdarábending: Með því að breyta þyngdinni í sætinu,  t.d. með því að horfa til hægri eða vinstri, þá finnur hesturinn fyrir því. Ef þú ert að horfa til hægri, þá fer hesturinn frekar þangað vegna þess að þyngdin breytist í sætinu og hesturinn finnur það. Prófaðu að sitja í stól og horfa til hægri og vinstri, þá finnur þú hvernig þyngdin á setbeinunum færist til. Hesturinn er yfirleitt svo næmur að finnur þessa breytingu og lærir þá í hvaða átt þú vilt stefna.

 

Keyri/pískur sem er eins og framlenging af hönd knapans og á alls ekki vera til að lemja hestinn með.  Hesturinn á ekki að vera hræddur við pískinn, hann á að virða hann. Pískurinn getur verið notaður þegar styrkja þarf ábendingu frá fæti. T.d. til að bæta viðbrögð fyrir fótinn ef hesturinn svarar ekki nægilega. Pískinn á að nota síðast, ef hinar ábendingarnar duga ekki.

Hesturinn er mjög næmur fyrir því hvernig við sitjum í hnakknum og sætið getur virkað hvetjandi og hamlandi allt eftir því hvernig við notum það. 

Þegar við erum á baki er góð regla að horfa þangað sem maður er að fara og að nota mjúk augu sem þýðir að knapinn er ekki að stara, eða horfa á einn ákveðin punkt heldur tekur eftir því sem er að gerast og horfir rólega fram.

Það skiptir málið hvernig og hvert við horfum!

Gott er að athuga ef herða þarf gjörðina á hnakknum. Svona getur þú gert það sjálf(ur) á baki.

 

Samspil

Þegar við erum komin aðeins lengra í reiðmennsku okkar og t.d. farin að ríða æfingar eða hafa áhrif á hvernig hesturinn notar líkamann sinn þá erum við að nota ábendingar á aðeins flóknari hátt, þá tölum við um samspil milli ábendinga.  T.d. þegar við viljum að hesturinn geri tvennt í einu, við biðjum hann samtímis að fara áfram og til hliðar. Ein slík æfing er t.d. krossgangur.  Þá þarf knapinn að nota marga ábendingar með mjög stuttu millibili og mikilvægt er að samspilið sé gott og að hesturinn skilji og fái umbun fyrir rétta svörun.

 

Hér er hestur og knapi í góðu samspili og hesturinn ber sig vel og er eins og kallað er við taum og höfuð hans er í lóði við lóðréttri línu eins og rauða línan synir.

 

Hér er hestur og knapi sem ekki eru komin jafn langt í samspili ábendinga eins og á stærri myndinni.  Hér sést líka vel að höfuðið er fyrir framan lóðlínu og hesturinn er allur "lengri."

 

Gangtegundir

Skeið

 

Tölt

 

Stökk

Brokk

Fet

Að stíga af baki

Láttu hestinn standa alveg kyrran.

Hallaðu efri hluta líkamans fram og taktu báðar fætur úr ístöðum. 

Sveiflaðu hægri fæti (eða vinstri) yfir afturhluta hestsins og passaðu að reka fótinn ekki óvart í hestinn.  Renndu þér mjúkega niður.

Í reiðhöllinni

Velkomin í reiðhöllinni

 

Reiðvöllur og reiðhöll eru eins og fimleikasalur hestsins.  Þar er yfirleitt sandur eða eitthvað annað mjúkt undirlag sem er gott fyrir hestinn að vinna í.  Ekki of hart en, ekki of mjúkt eða of þungt. 

 

Það er gott að nota reiðvöll til að kenna hestinum að svara ábendingum.  Þar gefst tækifæri til að vanda sig og fá hestinn til að hlýða betur ábendingum og geta stjórnað honum betur.  Að nota reiðvöll rétt er liðkandi og styrkandi fyrir hestinn og bætir jafnvægi hans og hreyfingar.  Einnig þarf knapinn að æfa sig í að stjórna og gefa réttar ábendingar. 

Að þjálfa hestinn vel og rétt inn á reiðvellli bætir gangtegundir og gefur fjölbreytta þjálfun, sem er mikilvægt til að viðhalda áhuga og gleði bæði í hest og knapa. 

Reiðvöllur er 20x40 m eða 20x60 m eftir hefðbundnum málum.  

Algengasta stærðin er 20x40 og er oftast notað við reiðkennslu, fimikeppni og próf í Knapamerkjum á íslenska hestinum.  

Inni á reiðvelli eru bókstafir sem eru notaðir til að riða nákvæmar reiðleiðir.  Til að muna stafina sem ríða á eftir, er gott að romsa út úr sér : All King Edwards Horses Can Manage Big Fences. (AKEHCMBC)

Þegar þú ríður á sporaslóð þá ertu að fylgja veggjunum í reiðhöllinni. Hornin eru riðin eins og 1/4 af 10 m baug. Þetta er ytri sporaslóð.

Að ríða einni hestlengd fyrir innan ytri sporaslóð er kallað

innri sporaslóð.

Millibil

Millibil er bilið milli hestsins þíns og hestsins fyrir framan þig.  Ef kennarinn er ekki búinn að nefna neitt annað á millibilið að vera tvær hestlengdir þegar þú ert í reiðkennslu.  Sem sagt tveir ósýnilega hestar á milli ykkar.

Vinstri hönd

Hægri hönd

Vinstri og hægri hönd

Þegar talað er um hægri og vinstri hönd þarf náttúrulega að vera búið að læra hvað  er hægri og hvað er vinstri.  Það getur verið gott að vera með vettlinga í mismunandi lit, til að tengja saman og þannig einfalda muninn á milli vinstri og hægri.  Hliðin sem snýr inn í miðju er kölluð innrihlið og sú sem snýr út er ytri hlið. Þegar hesturinn er á sveigðu spori eða er stilltur/sveigður þá er innri hlið, sú hlið sem hesturinn horfir til, sem sagt höfuð er stillt til hægri ef hann horfir aðeins meira til hægri.

Reglur á reiðvellinum

Mikilvægt er að kynna sér vel hvaða reglur gilda á reiðvellinum.  Það eru oft margir að ríða um í reiðhöllum t.d. í hesthúsahverfinn.  Ef allir fylgja reglunum er miklu auðveldara og skemmtilegra fyrir alla að þjálfa sinn hes, um leið þurfa þeir ekki að óttast að rekast á hvorn annan eða valda slysi. 

 

 

1. Þegar þú fer inn á völlinn með eða án hests, þá þarftu að láta vita af þér.  Einhver getur staðið fyrir innan hurðina eða komið á fullri ferð akkurat þegar þú opnar dyrnar inn á reiðvöllinn. Farðu inn fyrir sporaslóðina, inn á völlinn, þegar þú ert að fara á og af baki.  Ekki stoppa á sporaslóðinni, það truflar hina.  

Sá knapi sem er á hröðustu gangtegundinni og fer hraðast, á að vera á sporaslóðinni og hinn sem fer hægar á að fara inn fyrir sporaslóð, sem sagt á innri sporaslóð.  

 

 

2. Alveg eins og í umferðinni.  Ef þú ríður til hægri, þá sem sagt þú heldur til hægri og vinstri hendur “mætast” á knöpum.  

Þegar þú ert að stoppa hestinn átt þú að færa þig inn á innra sporaslóð til að trufla ekki hina.  

 

 

3. Þau sem eru að æfa erfitt verkefni eða lenda í erfiðleikum eiga líka forgang.  Mikilvægt er að vera vakandi og fylgjast með hinum.  

 

 

4. Passa þarf upp á að trufla ekki hina og sem áhorfandi þarf að hafa í huga að ganga rólega um og ekki vera með læti.  Hávaði og hvellir geta hrætt hestana. 

 

 

5. Það má ekki sleppa hesti lausum á meðan aðrir eru á baki og ekki heldur binda hest inni á reiðvelli.  

 

 

6. Skylda er að nota reiðhjálm í reiðhöllum, en að sjálfsögðu áttu alltaf að vera með reiðhjálm þegar þú ert á hestbaki!   

Ef þú mætir einhverjum þegar þú ert að ríða á baug eða á hring, þá átt þú að vera fyrir innan sporaslóð.  

Passa að stoppa ekki skyndilega á sporaslóð, farðu frekar inn á miðjan reiðvöllinn og stoppaðu þar, svo þú truflar ekki þá sem eru á hraðari gangtegundum. 

 

 

7. Að vera með hest í hringtaum eða í tvítaum er ekki ráðlagt á meðan margir eru inn í reiðhöllinni, nema það sé inn í afgirtu svæði eins og hringerði.  

 

8. Ef aðstæður eru þannig að einhver dettur af baki eða knapi missir stjórn á hesti sínum, er gott að hægja á sér og reyna aðstoða viðkomandi eftir besta getu.  Alltaf þarf að sýna tillit við aðra og vera vakandi fyrir umhverfi sínu.

Reiðleiðir

Að skipta um hönd, er að skipta frá vinstri yfir á hægri hönd, það er gert með mismunandi reiðleiðum.

Við reiðkennslu þarf knapinn að vita hvað kennarinn er að tala um varðandi reiðleiðir og merkingar og nauðsynlegt er að læra þær utan að með tímanum.

Miðlina

Skipt yfir allan/ hálfan völlinn

Hringur og Baugur

Átta

Skipt í geggnum hringinn

Baugur til baka

Slöngulinur

Á hringvelli

Á hringvelli

 

Hringvöllurinn er keppnisvöllur. Hefðbundinn hringur er 250 m.  Fyrir gæðingakeppni er notaður stærri völlur, en hann er 300 m. 

 

Sjá meira um keppni ef þú smellir á "keppni" í listanum.

 

Mikilvægt er að æfa sig á vellinum áður en keppnin hefst, því þá veit maður betur hvernig maður á að ríða hestinum á vellinum, t.d. í gegnum beygjurnar.  Einnig getur verið aðeins öðruvísi undirlag inni á vellinum og þá er gott að hafa prófað hvernig hesturinn virkar á vellinum sem þú ert að keppa á í hvert skipti.  Það er öðruvísi að ríða á hringvelli heldur en í reiðhöll.  

 

Oft eru lágt grindverk í kringum völlinn sem afmarka hann og ef hesturinn fer út fyrir grindverkið á meðan keppnin er í gangi er hann úr leik.

Ef æft er á velli og það eru fleiri knapar inn á, gilda umferðarreglur eins og í reiðhöll.  Sem sagt að halda til hægri og sá knapi sem er á hröðustu gangtegundinni er á ytri sporaslóð og sá sem er á hægari ferð heldur sig á innri sporaslóð.  Mikilvægt er að fylgjast vel með og vera meðvitaður um aðra hesta og knapa inn á vellinum.  T.d. ef einhver er að fara að hleypa hest á stökki eða leggja á skeið, er mikilvægt að sýna tillitsemi og fara ekki á móti umferð akkúrat þegar þetta er gert.   Gott er að láta aðra knapa vita af því,  ef það stendur til að fara að hleypa eða leggja á skeið svo það sé engin að koma á móti.

Í reiðtúr

Í reiðtúr

 

Það er mjög skemmtilegt bæði fyrir hest og knapa að fara í reiðtúr.  Það er yndislegt að vera í nálægð við náttúruna í góðum félagsskap og það eru oft margar fallegar leiðir sem hægt er að fara. Þar fyrir utan þá er líka sérstaklega gaman að nota náttúruna við þjálfun hestsins. 

 

Passa þarf upp á fjölbreytileikann við þjálfun hestsins síns og ekki alltaf gera það sama. Ef riðin er alltaf sama reiðleiðin á sama hraða, verður það leiðinlegt bæði fyrir þig og hestinn.

Ekki gera hluti sem þér langar ekki að gera eða treystir þér ekki til, bara vegna þess að það er einhver annar sem er að reyna fá þig til að gera þá. Það er flott að þora segja nei! 

 

 

Hér fylgja nokkrar pjálfunarleiðir bráðlega!!!!

bottom of page